Enski boltinn

Gallagher farinn frá Madríd og aftur til Chelsea

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Conor Gallagher hélt hann yrði leikmaður Atlético Madrid en er nú mættur aftur á æfingar hjá Chelsea.
Conor Gallagher hélt hann yrði leikmaður Atlético Madrid en er nú mættur aftur á æfingar hjá Chelsea. Darren Walsh/Chelsea FC via Getty Images

Óvíst er hvort Atlético Madrid takist að fjármagna félagaskipti Conors Gallagher frá Chelsea. Samningar voru í höfn en Chelsea hefur kallað leikmanninn aftur til sín. 

Chelsea samþykkti 33 milljóna punda tilboð Atlético í leikmanninn.

Samkomulag náðist um laun og læknisskoðun var frágengin en nú hefur Gallagher flogið frá Madríd og aftur til Lundúna.

Hann hafði æft með Atlético síðustu daga, spenna var fyrir skiptunum og þau voru vel auglýst á samfélagsmiðlum.

Gallagher hefur nú farið aftur til Chelsea og mun gangast undir hefðbundna læknisskoðun og þolmælingar eins og leikmenn gera alltaf þegar þeir snúa úr sumarfríum.

Atlético treysti á að selja sóknarmanninn Samu Omorodion til Chelsea til að fjármagna kaupin, en þær viðræður féllu niður um helgina. Nú hefur Atlético boðið Chelsea að kaupa Joao Felix, sem eyddi hálfu tímabili á láni hjá Chelsea árið 2023.

Svo greindi framkvæmdastjóri Valencia frá því að Atlético hafi viljað hætta við kaupin á Gallagher og sækja frekar Javi Guerra frá Valencia, en þær viðræður hafa einnig staðnað.

Tæpar þrjár vikur eru þar til félagaskiptaglugginn lokar og óvíst er hvort gengið verði frá kaupum á Gallagher. 

Sem stendur er hann enn þá leikmaður Chelsea og mun æfa með félaginu þar til annað kemur í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×