Enski boltinn

Ten Hag um kaupin á öllum þessum Ajax mönnum: Ekki bara mín á­kvörðun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erik ten Hag með nýju leikmönnunum Matthijs de Ligt og Noussair Mazraoui auk íþróttastjórans Dan Ashworth.
Erik ten Hag með nýju leikmönnunum Matthijs de Ligt og Noussair Mazraoui auk íþróttastjórans Dan Ashworth. Manchester United

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur ekki beðið félagið sérstaklega um að kaupa leikmenn sem hann hefur unnið með áður.

Ten Hag er að hefja sitt þriðja tímabil á Old Trafford og félagið hefur á þeim tíma keypt fimm leikmenn sem léku undir hans stjórn hjá hollenska félaginu Ajax.

Nú síðast keypti United þá Matthijs de Ligt og Noussair Mazraoui sem koma báðir frá Bayern München en spiluðu undir stjórn Ten Hag hjá Ajax fyrir nokkrum árum.

Áður hafði félagið keypt þá Lisandro Martínez, Antony og André Onana sem léku líka allir undir stjórn hans hjá Ajax.

Hollenski stjórinn segist þó ekki vera einn í því að finna nýja leikmenn fyrir félagið.

„Í fyrsta lagi þá er þetta ákvörðun félagsins og enginn þeirra var bara mín ákvörðun,“ sagði Ten Hag.

Hollendingurinn segir að margir komi að þeirri ákvörðun að kaupa leikmenn eins og yfirmaður knattspyrnumála og íþróttastjórinn auk þeirra sem njósna um leikmenn fyrir United.

„Þetta er alltaf ákvörðun sem fleiri en einn maður tekur. En það er samt gott að þekkja persónuleika leikmanna og svo þarf allt að ganga upp fjárhagslega,“ sagði Ten Hag. ESPN segir frá.

Ten Hag talaði sérstaklega um miðvörðinn De Ligt sem hefur spilað með Juventus og Bayern München síðan hann yfirgaf Ajax. Ten Hag segir hann vera einn besta miðvörð heims.

„Matthijs verður 25 ára í þessari viku og hefur þegar spilað næstum því 375 leiki fyrir Ajax, Juventus og Bayern. Það er ótrúlegt,“ sagði Ten Hag.

„Nú er hann að komast inn á sín bestu ár. Hann hefur mikla hæfileika sem fótboltamaður en þetta snýst líka um hans karakter og hans persónuleika. Ég er mjög ánægður með að hafa hann hér,“ sagði Ten Hag.

Manchester United spilar í kvöld fyrsta leik sinn á nýju tímabili í ensku úrvalsdeildinni þegar Fulham kemur í heimsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×