Enski boltinn

Milner sló met Giggs og tíu Newcastle-menn lönduðu sigri

Sindri Sverrisson skrifar
Ben Brereton Diaz lét eins og hann hefði stórskaðast vegna viðskipta sinna við Fabian Schär, sem var rekinn af velli. Manni færri unnu Newcastle-menn þó 1-0 sigur.
Ben Brereton Diaz lét eins og hann hefði stórskaðast vegna viðskipta sinna við Fabian Schär, sem var rekinn af velli. Manni færri unnu Newcastle-menn þó 1-0 sigur. Getty/Ian MacNicol

Newcastle vann afar kærkominn sigur á nýliðum Southampton í dag, 1-0, þrátt fyrir að vera manni færri í rúman klukkutíma. Brighton skellti Everton 3-0, í leik þar sem James Milner sló met fyrir framan unga stjórann sinn, en Nottingham Forest og Bournemouth gerðu 1-1 jafntefli.

Svissneski miðvörðurinn Fabian Schär var rekinn af velli eftir 27 mínútna leik gegn Southampton í dag, eftir að hafa nuddað höfði sínu saman við Ben Brereton Díaz sem féll með tilþrifum til jarðar.

Þetta kom þó ekki í veg fyrir sigur Newcastle en mark liðsins skoraði Joelinton eftir stoðsendingu Alexanders Isak, rétt fyrir hálfleik.

Stjórinn níu ára þegar Milner byrjaði

Brighton vann flottan 3-0 útisigur gegn Everton, í fyrsta leik sínum undir stjórn hins 31 árs gamla Fabian Hürzeler. Rautt spjald á Ashley Young bætti ekki úr skák fyrir Everton.

Hürzeler var enn aðeins níu ára gamall þegar James Milner lék sína fyrstu leiktíð í ensku úrvalsdeildinni, en Milner sló í dag met Ryan Giggs með því að hefja sína 23. leiktíð. Kaoura Mitoma, Danny Welbeck og Simon Adingra skoruðu mörk Brighton.

Metið sem Ashley Young sló er ekki eins eftirsóknarvert en hann fékk rautt spjald og varð þar með elsti leikmaður í sögu deildarinnar til að vera rekinn af velli, 39 ára og 39 daga gamall. Everton-menn voru manni færri frá 66. mínútu en þá var staðan þegar orðin 2-0.

Chris Wood og Antoine Semenyo skoruðu svo sitt markið hvor í leik Forest og Bournemouth sem lauk með jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×