Enski boltinn

Söngurinn um Haaland kom í bakið á honum: „Fyndinn ná­ungi“

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland losaði sig við Marc Cucurella og skoraði með laglegri vippu gegn Chelsea í dag.
Erling Haaland losaði sig við Marc Cucurella og skoraði með laglegri vippu gegn Chelsea í dag. Getty/Catherine Ivill

Marc Cucurella gæti hafa séð eftir því í dag að hafa sungið um það í sumar að Erling Haaland ætti að skjálfa á beinunum þegar Cucurella væri á svæðinu. Haaland fór illa með hann á fótboltavellinum í dag og tjáði sig um Spánverjann í viðtali eftir leik.

Myndbandi af söng Cucurella, í sigurvímu eftir Evrópumeistaratitil spænska landsliðsins í sumar, var dreift um samfélagsmiðla. Þar söng hann lag sem stuðningsmenn hans hafa gjarnan sungið, sem í lauslegri þýðingu hljóðar svo:

„Cucu cucu-rella, hann borðar paella. Cucu cucu-rella, hann drekkur Estrella. Halland þú ættir að skjálfa því Cucurella er að koma!“

Þeir Cucurella og Haaland mættust svo í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Þar hristi Haaland Cucurella af sér eins og flugu þegar hann skoraði fyrra mark Manchester City, í 2-0 sigri á Chelsea.

Haaland, markakóngur síðustu tveggja leiktíða á Englandi, byrjar því leiktíðina af krafti en hann var spurður út í Cucurella og sönggleði hans:

„Cucurella má gera það sem hann vill, það truflar mig ekki. En hann er fyndinn náungi. Á síðustu leiktíð vildi hann fá treyjuna mína og í sumar söng hann söngva um mig,“ sagði Haaland.

Mateo Kovacic skoraði seinna mark City í leiknum og Englandsmeistararnir byrja vel í tilraun sinni til að verða meistarar fimmta árið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×