Enski boltinn

Mikil mannekla hjá Everton liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sean Dyche sést hér á hliðarlínunni í tapi Everton á móti Brighton & Hove Albion um síðustu helgi.
Sean Dyche sést hér á hliðarlínunni í tapi Everton á móti Brighton & Hove Albion um síðustu helgi. Getty/Robbie Jay Barrat

Enska úrvalsdeildarfélagið Everton er í vandræðum með leikmannahópinn sinn um helgina þegar liðið á að mæta Tottenham í annarri umferð tímabilsins.

Aðeins fjórtán leikmenn liðsins geta tekið þátt í leiknum. Everton var líka án leikmanna í fyrstu umferðinni þegar það steinlá 3-0 á móti Brighton.

Síðan þá hefur ástandið versnað enn frekar. Knattspyrnustjórinn Sean Dyche veit þannig ekki hvaða leikmenn hann muni geta notað í leiknum við Tottenham á morgun.

„Því miður er hópurinn okkar þunnur núna. Eins og staðan er núna þá erum við bara með fjórtán leikfæra menn úr aðalliðinu. Þetta er ekki ákjósanlegt,“ sagði Dyche.

James Tarkowski er tæpur fyrir leikinn og þá tekur Ashley Young út leikbann vegna rauða spjaldsins um síðustu helgi.

Everton er líka að glíma við fjárhagsvandræði og missti stig á síðustu leiktíð vegna brota á rekstrarreglum.

Dyche viðurkennir að það sé því mjög erfitt að bæta við leikmannahópinn nema að fá menn mjög ódýrt eða á frjálsri sölu. Hann er því ekki bjartsýnn á það að hann geti bætt við mönnum áður en glugginn lokar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×