Enski boltinn

Arne Slot ætlaði ekki að vera svona harð­orður um Quansah

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Jarell Quansah var í byrjunarliði Liverpool í fyrsta leik tímabilsins en var síðan tekinn af velli í hálfleik á móti Ipswich Town.
 Jarell Quansah var í byrjunarliði Liverpool í fyrsta leik tímabilsins en var síðan tekinn af velli í hálfleik á móti Ipswich Town. Getty/Bradley Collyer

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, var á blaðamannafundi í dag spurður út í ákvörðun sína að taka Jarell Quansah af velli í hálfleik á móti Ipswich.

Quansah var tekinn af velli í stöðunni 0-0 og eftir dapran fyrri hálfleik hjá Liverpool. Liverpool tók yfir leikinn í þeim seinni og vann sannfærandi 2-0 sigur. Ibrahima Konate kom inn fyrir Quansah.

Á blaðamannafundinum var Slot spurður út í viðbrögð miðvarðarins unga. Það vakti talverða athygli þegar Slot sagði eftir leikinn að hann hefði tekið miðvörðinn af velli vegna þess að Quansah hefði tapað öllum einvígum sínum í hálfleiknum.

„Hann brást við eins og þú býst við að leikmaður bregðist við. Ég ræddi við hann strax eftir leikinn og svo aftur daginn eftir. Í lok þess samtals spurði hann hvort hann mætti æfa á sunnudeginum. Hann hefði því átt að vera í endurheimt en vildi æfa,“ sagði Slot. Hinn 21 árs gamli Quansah vildi ólmur vinna í sínum leik og það sem fyrst.

„Því miður þá meiddist hann á þriðjudaginn og gat ekki æft með okkur á miðvikudaginn. Við sjáum til hvort hann geti æft með okkur í dag,“ sagði Slot.

Liverpool mætir Brentford á Anfield á sunnudaginn.

„Ég held að það sé ekki mikið í þessu satt að segja. Kannski var enskukunnáttan mín vandamálið. Ég ætlaði aldrei að segja að hann hafi tapað öllum einvígum. Hann tapaði aftur á móti nokkrum mikilvægum einvígum og einu af þeim rétt fyrir hálfleik,“ sagði Slot.

„Það sem mér hefur verið sagt er að ég hafi sagt hann hafa tapað öllum einvígum en ég ætlaði ekki að segja það,“ sagði Slot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×