Enski boltinn

„Veit ekki hvort hún skilur hvað hún gerði“

Sindri Sverrisson skrifar
Maja Nilsson Lindelöf á leik með sænska landsliðinu, þar sem eiginmaður hennar spilar.
Maja Nilsson Lindelöf á leik með sænska landsliðinu, þar sem eiginmaður hennar spilar. Getty/Jean Catuffe

Eiginkona sænska fótboltamannsins Victors Lindelöf virðist hafa valdið aðdáendum Manchester United hugarangri með færslu sinni á Instagram.

Maja Nilsson Lindelöf er virk á samfélagsmiðlum og birti í gær mynd af sér með stórar ferðatöskur og skrifaði: „Nú förum við.“

Enskumælandi stuðningsmenn United virðast hafa skilið orð hennar, sem skrifuð voru á sænsku, þannig að Victor Lindelöf væri á förum frá enska félaginu. Sænsku orðin „nu åker vi“ mætti nefnilega skilja sem „here we go“, sem er orðinn þekktur frasi um það þegar félagaskipti eru frágengin. Íþróttafréttamaðurinn Fabrizio Romano notar þannig þessi orð iðulega þegar hann greinir frá félagaskiptum.

Lindelöf hefur ekki verið með United í upphafi nýrrar leiktíðar og eftir kaup félagsins á nýjum miðvörðum verið sagður á förum frá félaginu í sumar. Þess vegna virðast margir hafa talið færslu Maju vera staðfestingu á því, eins og sjá má í ummælum við færsluna.

Sænska blaðið Expressen segir að þetta hafi ekki fallið í kramið hjá Youtube-stjörnunni Mark Godbridge sem er með um tvær milljónir áskrifenda á síðunni United Stand, þar sem hann fjallar um United.

„Ég veit ekki hvort þetta á að vera eitthvað grín. Ég veit ekki hvort hún skilur hvað hún gerði. En Victor Nilsson Lindelöf er ekki að fara frá Manchester United í þessari viku. Hann er meiddur,“ sagði Goldbridge, en félagaskiptaglugginn á Englandi lokast á föstudaginn.

„Í besta falli voru þetta mistök hjá eiginkonu hans sem ætlaði bara að segja frá því að þau væru að fara í ferðalag. Eða kannski vildi hún stríða United-stuðningsmönnum svolítið, sem er ekki mjög gáfulegt að gera nú þegar margir vilja í alvöru losna við hann,“ bætti hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×