Enski boltinn

Merino mættur í Arsenal: „Sigur­vegari með gríðar­leg gæði“

Sindri Sverrisson skrifar
Mikel Merino er búinn að skrifa undir hjá Arsenal.
Mikel Merino er búinn að skrifa undir hjá Arsenal. Arsenal.com

Arsenal kynnti í dag spænska landsliðsmanninn Mikel Merino til leiks sem sinn nýjasta leikmann. Enska knattspyrnufélagið greiðir 31,6 milljónir punda fyrir hann, að meðtöldum 4,2 milljóna punda aukagreiðslum.

Merino, sem er 28 ára, er ein af EM-hetjum Spánar frá því í sumar þegar liðið vann titilinn í Þýskalandi. Hann skoraði þar sigurmarkið dýrmæta gegn Þjóðverjum í framlengdum leik í 8-liða úrslitum.

Merino er þriðji leikmaðurinn sem að Arsenal kaupir í sumarglugganum en áður hafði félagið fengið ítalska varnarmanninn Riccardo Calafiori og gengið frá kaupum á spænska markverðinum David Raya sem áður hafði komið að láni.

Merino er miðjumaður og þekkir til í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa verið þar í eitt ár með Newcastle, áður en hann fór til Real Sociedad árið 2018. Þar lék hann með Martin Ödegaard í eina leiktíð, og endurnýja þeir nú samstarf sitt.

„Mikel er leikmaður sem færir okkur gríðarleg gæði með reynslu sinni og fjölhæfni. Hann hefur spilað á hæsta stigi leiksins með bæði félagsliði og landsliði, í fjölda leiktíða. Mikel gerir hópinn okkar umtalsvert sterkari, með tæknilegum hæfleikum sínum ásamt sterkum og jákvæðum karaktereinkennum,“ sagði Mikel Arteta, stjóri Arsenal.

„Eins og við sáum öll í sumar þá er Mikel líka sigurvegari, eins og frammistaða hans með Spáni á EM sýndi. Við erum í skýjunum með að geta boðið Mikel og fjölskyldu hans velkomin til félagsins, og getum ekki beðið eftir því að byrja að vinna með honum,“ sagði Mikel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×