Enski boltinn

Sol Bamba látinn að­eins 39 ára

Smári Jökull Jónsson og Magnús Jochum Pálsson skrifa
Sol Bamba í leik með Middlesbrough árið 2022.
Sol Bamba í leik með Middlesbrough árið 2022. Vísir/Getty

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Sol Bamba er látinn aðeins 39 ára að aldri eftir að hafa veikst skyndilega á föstudag. Hann á að baki feril í ensku úrvalsdeildinni með Leicester, Leeds og Cardiff.

Sol Bamba kom víða við á sínum ferli og á að baki 46 leiki fyrir landslið Fílabeinsstrandarinnar. Bamba var ættaður frá Fílabeinsströndinni en fæddist í úthverfi Parísar og hóf feril sinn hjá PSG sem miðvörður. Hann komst ekki í aðallið franska stórliðsins og fór því yfir til Skotlands þar sem hann spilaði sex tímabil, þrjú fyrir Dunfermline og þrjú hjá Hibernian.

Eftir dvöl sína í Skotlandi flakkaði Bamba töluvert, lék nokkur tímabil fyrir Leicester, Leeds, Trabzonspor og einn leik fyrir Palermo. Lengst var hann hjá Cardiff í fimm tímabil, lék þar með Aroni Einari og hjálpaði liðinu að komast upp í ensku úrvalsdeildina í eitt tímabil.

Bamba greindist með non-Hodgkin eitilfrumukrabbamein árið 2021 þegar hann var hjá Cardiff en sigraðist á því áður en hann tók eitt síðasta tímabil í boltanum með Middlesborough.

Veiktist skyndilega á föstudag

Eftir að hann lagði skóna á hilluna vann Bamba sem aðstoðarþjálfari Cardiff og tók í sumar við sem íþróttastjóri hjá tyrkneska liðinu Adanaspor. Hann veiktist fyrir leik liðsins á föstudag og var fluttur í skyndi á sjúkrahús þar sem hann lést.

Í tilkynningu frá Adanaspor sagði: „Íþróttastjórinn okkar Souleymane Bamba, sem veiktist fyrir leik gegn Manisa F.K. í gær, var fluttur á Manisa Celal Bayar háskólasjúkrahúsið og lét þar lífið.“

„Hugur okkar er hjá fjölskyldu hans og vinum,“ skrifar félagið í yfirlýsingu á samfélagsmiðlinum X.

Fjöldi fólks hefur minnst Bamba a miðliðunum. Þar á meðal hans fyrrverandi félög og liðsfélagar, á X minnist Leeds miðvarðarins og segja alla innan félagsins í sárum.

„Allir í Leeds eru miður sín eftir að fréttir bárust af andláti fyrrum fyrirliða félagsins Sol Bamba. Hugur okkar er hjá fjölskyldu hans og vinum á þessari sorgarstundu. Hvíldu í friði Sol, þú munt alltaf vera í hjörtum okkar,“ skrifar félagið og á X-síðu Middlesbrough er Bamba einnig minnst en hann lék með félaginu tímabilið 2021-22.

Í Leiceseter lék Bamba undir stjórn Sven Göran Eriksson sem lést í vikunni eftir baráttu við krabbamein. Bamba minntist Eriksson í vikunni og sagði hann besta knattspyrnustjóra sem hann hafði haft og „framúrskarandi manneskju.“


Tengdar fréttir

Leikmaður Cardiff með krabbamein

Sol Bamba, leikmaður enska B-deildarliðsins Cardiff City, hefur greinst með krabbamein og er í meðferð vegna þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×