Enski boltinn

Steve Bruce fær enn starf í enska boltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve Bruce er orðinn 63 ára gamall en hann fær nú sitt þrettánda stjórastarf í enska boltanum.
Steve Bruce er orðinn 63 ára gamall en hann fær nú sitt þrettánda stjórastarf í enska boltanum. Getty/Serena Taylor

Steve Bruce er ekki búinn að vera sem knattspyrnustjóri í enska boltanum.

Enska C-deildarfélagið Blackpool hefur ráðið Bruce sem stjóra félagsins næstu tvö árin.

Hinn 63 ára gamli reynslubolti hefur verið atvinnulaus síðan að West Bromwich Albion rak hann í október 2022. Bruce náði aðeins að klára níu mánuði hjá West Brom.

Bruce hefur stýrt liðum í yfir þúsund leikjum í enska boltanum en meðal liða sem hann hefur stýrt eru Birmingham City, Hull City, Aston Villa og Newcastle United.

Steve Agnew hefur oft verið aðstoðarmaður Bruce og fylgir honum líka í þetta verkefni.

„Ég er ánægður með að vera kominn aftur í fótboltann og að fá að taka við stjórninni hjá þessu frábæra fótboltafélagi,“ sagði Steve Bruce á heimasíðu Blackpool.

Þetta er þrettánda starf Bruce síðan að hann setti skóna upp á hilluna árið 1999. Þetta er reyndar bara tólfta félagið því hann hefur stýrt Wigan tvisvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×