Enski boltinn

Kallar Man. Utd liðið FC Hollywood

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Graeme Souness tók Kobbie Mainoo sérstaklega fyrir sem dæmi um einn af ungu mönnunum sem er látið allt of mikið með áður en þeir verða alvöru leikmenn.
Graeme Souness tók Kobbie Mainoo sérstaklega fyrir sem dæmi um einn af ungu mönnunum sem er látið allt of mikið með áður en þeir verða alvöru leikmenn. Getty/James Gill

Liverpool fór illa með Manchester United í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi og United menn voru eftir leikinn í skotfæri hjá einum af knattspyrnusérfæðingum enska boltans.

Skotinn Graeme Souness var heldur ekkert að tala undir rós þegar hann ræddi vandamálin hjá Manchester United, liði sem endaði í áttunda sætinu í fyrra og hefur aðeins náð í þrjú stig af níu möguleikum í upphafi nýs tímabils.

Souness er fyrrum fyrirliði og knattspyrnustjóri Liverpool en hann er líka margfaldur Englandsmeistari og þrefaldur Evrópumeistari. Hann var sjálfur mikill leiðtogi á miðju Liverpool og skoska landsliðsins.

„Þetta er FC Hollywood. Í Þýskalandi þá tala þeir um Bayern München sem FC Hollywood en Manchester United er í því hlutverki hér í enska boltanum,“ sagði Souness.

Það er fullt af ungum og efnilegum leikmönnum í liði United en Skotinn er ekki hrifinn af því hvað er látið mikið með þá. Það gerir auðvitað engum leikmanni gott að gera hann að stórstjörnu áður en hann hefur þroska eða getu til að ráða við slíkan stimpil.

„Ef einhver í liðinu sýnir eitthvað inn á vellinum þá er um leið búið að búa til súperstjörnu úr viðkomandi leikmanni. Það gerist löngu áður en þeir eru orðnir að góðum leikmönnum,“ sagði Souness.

„Hann [Kobbie] Mainoo verður kannski flottur leikmaður einhvern daginn en hann er svo sannarlega ekki sá aðalmaður hjá United í dag eins og menn eru tala um,“ sagði Souness.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×