Enski boltinn

Gæti fengið langt bann fyrir rasískt grín í garð liðsfélaga

Sindri Sverrisson skrifar
Son Heung-min og Rodrigo Bentancur á góðri stundu í leik með Tottenham. Son segir að enn sé allt gott á milli þeirra tveggja.
Son Heung-min og Rodrigo Bentancur á góðri stundu í leik með Tottenham. Son segir að enn sé allt gott á milli þeirra tveggja. Getty/Charlotte Wilson

Enska knattspyrnusambandið hefur kært Rodrigo Bentancur, miðjumann Tottenham, vegna rasískra ummæla um liðsfélaga hans, Son Heung-min, í sumar. Hann gæti fengið langt bann.

Bentancur viðhafði ummælin á úrúgvæskri sjónvarpsstöð í júní, þegar stjórnandi þáttarins bað hann um Tottenham-treyju:

„Sonnys? Það gæti reyndar verið frændi Sonnys því þeir líta allir eins út,“ sagði Bentancur.

Hann baðst í kjölfarið afsökunar, í færslu á Instagram, og sagði ummæli sín vera „slæman brandara“.

Í frétt BBC segir að varðandi lengd leikbanns sem Bentancur gæti fengið þá segir í lögum enska sambandsins að nær öll brot sem mismuni fólki kalli á 6-12 leikja bann.

Bentancur hefur nú viku frest til þess að bregðast við kærunni. Hann ætti því að geta spilað grannaslaginn stóra við Arsenal á sunnudaginn.

Son fyrirgaf Bentancur strax

Samtökin Kick it Out, sem berjast gegn kynþáttaníði, segja að fjöldi kvartana hafi borist vegna rasískra ummæla Bentancurs, og að þau sýni útbreiddan vanda sem beinist gegn Austur-Asíu.

Son hefur sjálfur sagt að allt sé í góðu á milli sín og Bentancur.

„Ég er búinn að tala við Lolo,“ sagði Son í júní. „Hann gerði mistök, veit af því og hefur beðist afsökunar.“

„Lolo myndi aldrei viljandi segja eitthvað niðrandi. Við erum bræður og það hefur ekkert breyst. Við erum komnir yfir þetta, sameinaðir, og munum berjast saman fyrir félagið okkar sem einn maður,“ sagði Son.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×