Enski boltinn

Pep ekki verið kosinn besti stjórinn í næstum því þrjú ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola hefur gert frábæra hluti með Manchester City en ekki þó nógu góða til að vera kosinn besti knattspyrnustjóri mánaðarins.
Pep Guardiola hefur gert frábæra hluti með Manchester City en ekki þó nógu góða til að vera kosinn besti knattspyrnustjóri mánaðarins. Getty/Richard Pelham

Manchester City hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína í titilvörninni eftir að hafa verið fyrsta liðið í sögunni til að vinna ensku úrvalsdeildina þrjú ár í röð. Knattspyrnustjóri félagsins hefur samt uppskorið afar lítið þegar kemur að mánaðarverðlaunum deildarinnar.

Enska úrvalsdeildin verðlaunaði Fabian Hurzeler í gær fyrir að vera besti knattspyrnustjóri ensku úrvalsdeildarinnar í ágúst.

Hurzeler gerði mjög góða hluti með Brighton & Hove Albion í ágúst sem fór taplaust í gegnum fyrstu þrjá leikina og náði í sjö stig af níu mögulegum.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester City, var tilnefndur eins og þeir Mikel Arteta hjá Arsenal og Arne Slot hjá Liverpool.

Ekki fengið verðlaunin í 22 mánuði í röð

Guardiola var síðast kosinn besti knattspyrnustjóri mánaðarins í desember 2021 eða fyrir næstum því þremur árum síðan.

Þetta var 22. mánuðurinn í röð þar sem Pep fær ekki verðlaunin. Ellefu mismunandi þjálfarar hafa verið valdir besti stjórinn á þessum tíma.

Arteta valinn sex sinnum á sama tíma

Þeir sem hafa fengið oftast þessi mánaðarverðlaun frá því að Guardiola tók þau síðast eru Mikel Arteta með Arsenal (6 sinnum), Erik ten Hag með Manchester United (3 sinnum), Ange Postecoglou með Tottenham (3 sinnum), Eddie Howe með Newcastle (2 sinnum) og Unai Emery með Aston Villa (2 sinnum).

Guardiola hefur ellefu sinnum verið kosinn besti stjóri mánaðarins á átta árum sínum í ensku úrvalsdeildinni. Aðeins Sir Alex Ferguson (27 sinnum) og Arsène Wenger (15 sinnum) hafa fengið þau oftar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×