Enski boltinn

„Þú færð mikið borgað svo þú mátt ekki sýna til­finningar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Phil Jones varð Englandsmeistari með Manchester United 2013.
Phil Jones varð Englandsmeistari með Manchester United 2013. getty/Ash Donelon

Phil Jones, fyrrverandi leikmaður Manchester United, segir að stríðnin sem hann varð fyrir meðan hann var að spila hafi haft mikil áhrif á hann.

Í síðasta mánuði tilkynnti Jones að hann væri hættur í fótbolta. Hann var í tólf ár hjá United en var gríðarlega óheppinn með meiðsli og lék aðeins 229 leiki fyrir liðið.

Jones var vinsælt skotmark netverja vegna tíðrar fjarveru og óhefðbundins leikstíls. Hann segir að stríðnin hafi haft mikil áhrif á hann, þótt hann hafi reynt að fela það. 

„Ég hef gengið í gegnum erfiða tíma andlega. Sá sem segir að það hafi ekki áhrif er að ljúga. Og sem fótboltamenn verðurðu að setja upp grímu. Þú færð mikið borgað svo þú mátt ekki sýna tilfinningar. Líkamlegu meiðslin veiktu mig andlega. Varnarráð mitt var að þegja og brynja mig í kringum mína nánustu. Ég talaði heldur eiginlega ekki við vini mína,“ sagði Jones.

„Þú gekkst framhjá fólki úti á götu og það sagði eitthvað sem hafði áhrif á þig. Þú heyrðir fólk hvísla: Oh, þarna er hann. Hann er alltaf meiddur. Fólk sagði að þú ættir ekki að þiggja laun. Ef það vissi bara hvað ég væri að gera til að ná heilsu. Mér fannst lengi mjög erfitt að fara á veitingastaði. Þú lést lítið á þér bera í margmenni og svona. Ég vildi ekki að fólk kæmi auga á mig.“

Jones stefnir á að verða þjálfari í framtíðinni og náði sér í gráður með því að þjálfa hjá United, sínu gamla félagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×