Enski boltinn

Með tvær ferða­töskur af fíkni­efnum

Sindri Sverrisson skrifar
Jay Emmanuel-Thomas er leikmaður Greenock Morton í Skotlandi.
Jay Emmanuel-Thomas er leikmaður Greenock Morton í Skotlandi. Getty/Ross MacDonald

Knattspyrnumaðurinn Jay Emmanuel-Thomas, fyrrverandi leikmaður Arsenal, var handtekinn og ákærður fyrir að flytja inn fíkniefni til Bretlands.

Um var að ræða tvær ferðatöskur með samtals 60 kílóum af kannabisefnum, sem samkvæmt Sky Sports eru virði um 600.000 punda eða um 108 milljóna króna.

Emmanuel-Thomas, sem er 33 ára gamall, kom með fíkniefnin frá Bangkok í Taílandi í síðasta mánuði, en þau fundust á Stansted-flugvellinum. Tvær konur hafa einnig verið ákærðar vegna málsins.

Emmanuel-Thomas var í unglingaakademíu Arsenal og á mála hjá félaginu á fyrstu árum meistaraflokksferilsins, en spilaði þó aðeins einn deildarleik fyrir liðið. Hann lék svo með Ipswich, Bristol City og QPR ásamt fleiri liðum, en hefur einnig spilað í Taílandi og Indlandi.

Í dag er hann á mála hjá Greenock Morton í Skotlandi. Forráðamenn félagsins hafa hingað til ekki viljað tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×