Enski boltinn

Fergu­son saknar fót­boltans

Aron Guðmundsson skrifar
Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United og Erik ten Hag, núverandi knattspyrnustjóri félagsins.
Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United og Erik ten Hag, núverandi knattspyrnustjóri félagsins. Vísir/getty

Sir Alex Ferguson, fyrrum knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United og goðsögn í sögu félagsins sem og knattspyrnusögunnar, segist stundum sakna þess að starfa í kringum knattspyrnu. 

Frá þessu greindi hinn 82 ára gamli Ferguson í viðtali við BBC Breakfast. Ferguson lét gott heita í þjálfun eftir tímabilið 2012-2013 hjá Manchester United þar sem að liðið endurheimti Englandsmeistaratitilinn en undir hans stjórn hafði Manchester United unnið allt sem hægt var að vinna. 

„Já ég sakna þess stundum,“ sagði Ferguson í viðtali hjá BBC. „Fyrsta árið eftir að ég hætti í þjálfun fór ég með eiginkonu minni á úrslitaleikinn í Meistaradeild Evrópu og sá þá og sagði við hana: „Þetta er það sem ég sakna, stórleikirnir. Evrópuleikirnir“ og ég hef verið tíður gestur á þessum úrslitaleikjum því á þeim finn ég fyrir einhverri tilfinningu sem ég get tengt við. Eitthvað sem ég hefði viljað gera og finna fyrir á hverjum degi."

Ferguson er sigursælasti stjóri enskrar knattspyrnu með þrettán Englandsmeistaratitla á ferilskránni  og tvo Evrópumeistaratitla. Þá varð hann enskur bikarmeistari fimm sinnum og stýrði Manchester United fjórum sinnum til sigurs í enska deildarbikarnum.

Allt frá því að Ferguson yfirgaf sviðið hefur Manchester United gengið erfiðlega að halda uppi þeirri sigurhefð sem hann hafði búið til hjá félaginu sem og stöðugleika. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×