Enski boltinn

Segir að Rashford hafi tekið lífsstílinn í gegn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marcus Rashford fagnar öðru marka sinna í 7-0 sigri Manchester United á Barnsley.
Marcus Rashford fagnar öðru marka sinna í 7-0 sigri Manchester United á Barnsley. getty/Ash Donelon

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að Marcus Rashford sé kominn á beinu brautina eftir að hafa tekið til hjá sér utan vallar.

Eftir að hafa skorað þrjátíu mörk tímabilið 2022-23 átti Rashford erfitt uppdráttar í fyrra og var ekki valinn í enska landsliðið fyrir Evrópumótið.

Framherjinn hefur hins vegar skorað þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum United og Ten Hag að breytingar sem hann hafi gert á lífi sínu séu að bera ávöxt.

„Ég held að hann hafi alltaf vitað. Allir vita að þegar lífsstíllinn er ekki í lagi geturðu ekki staðið þig í þessari deild,“ sagði Ten Hag á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Crystal Palace í dag.

„Þú nærð ekki árangri ef þú lifir ekki góðum og öguðum lífsstíl utan æfingasvæðisins. Hann þurfti smá hjálp og stuðning. En á endanum þurfti hann að gera þetta sjálfur. Hann hefur komið lífi sínu á réttan kúrs og viðhorf til æfinga og leikja er rétt. Þegar fagmennskan er komin í réttan farveg mun standa sig því hann er afbragðs leikmaður.“

Á síðasta tímabili mætti Rashford of seint á liðsfund, skemmti sér alla nóttina eftir tap fyrir Manchester City og hringdi sig svo inn veikan eftir að hafa djammað í Belfast.

Leikur United og Palace hefst klukkan 16:30 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×