Þrjú rauð á loft þegar Brighton og Forest gerðu jafn­tefli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Robert Jones rekur Morgan Gibbs-White af velli.
Robert Jones rekur Morgan Gibbs-White af velli. getty/Gareth Fuller

Brighton og Nottingham Forest skildu jöfn, 2-2, í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Bæði lið hafa byrjað tímabilið vel.

Gestirnir frá Nottingham komust yfir á 13. mínútu þegar Chris Wood skoraði úr vítaspyrnu.

Jack Hinshelwood jafnaði á 42. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf frá Jan Paul van Hecke. Á lokamínútu fyrri hálfleiks kom Danny Welbeck heimamönnum svo yfir með marki beint úr aukaspyrnu. Welbeck hefur byrjað tímabilið vel og er kominn með fjögur mörk í ensku úrvalsdeildinni.

Varamaðurinn Ramón Sosa tryggði Forest svo stig þegar hann jafnaði á 70. mínútu. Hann skoraði þá í opið markið eftir sendingu frá Jota Silva.

Þegar sjö mínútur voru til leiksloka fékk Morgan Gibbs-White hjá Forest sitt annað gula spjald og þar með rautt. Upp úr sauð í kjölfarið og báðir knattspyrnustjórarnir, Nuno Espirito Santo og Fabian Hurzeler voru reknir út af.

Mörkin eða rauðu spjöldin urðu hins vegar ekki fleiri og leikar fóru 2-2. Brighton og Forest eru bæði með níu stig í 7. og 8. sæti deildarinnar. Nottingham-liðið hefur ekki enn tapað leik á tímabilinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira