Enski boltinn

Stjóri West Ham meiddist gegn Liverpool og yfir­gaf völlinn á hækjum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Julen Lopetegui tók við West Ham United fyrir tímabilið.
Julen Lopetegui tók við West Ham United fyrir tímabilið. getty/Dan Mullan

Stjóratíð Julens Lopetegui hjá West Ham United hefur ekki farið vel af stað. Liðinu gengur illa inni á vellinum og til að bæta gráu ofan á svart meiddi Spánverjinn sig í leiknum gegn Liverpool.

Hamrarnir steinlágu fyrir Rauða hernum í 4. umferð enska deildabikarsins á Anfield í gær. West Ham komst yfir í leiknum en Liverpool svaraði með fimm mörkum og vann öruggan sigur.

Lopetegui var svekktur með gang mála og endaði á því að meiða sig á hliðarlínunni. Eftir að Crysencio Summerville klúðraði góðu færi í stöðunni 3-1 stökk Lopetegui upp í loftið en lenti illa. 

Spánverjinn sat í sæti sínu á varamannabekknum það sem eftir lifði leiks og haltraði svo á blaðamannafund í leikslok. Hann studdist svo við hækjur þegar hann yfirgaf Anfield.

„Ég meiddist aðeins í kálfanum,“ sagði Lopetegui á blaðamannafundinum eftir leikinn. Hann sagði jafnframt að sínir menn hefði ekki átt skilið að tapa svona stórt. Þeir hefðu verið inni í leiknum, átt sín tækifæri en orðið fyrir barðinu á ósanngjarnri dómgæslu.

West Ham hefur ekki farið vel af stað undir stjórn Lopeteguis og er í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með aðeins fimm stig eftir fimm umferðir. Næsti leikur West Ham er Lundúnaslagur gegn Brentford á laugardaginn.

Lopetegui tók við West Ham af David Moyes í sumar. Hann þekkir ágætlega til ensku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa stýrt Wolves um tíma.


Tengdar fréttir

„Eina sem gerir mann betri er að vinna“

„Leikurinn var mun erfiðari en úrslitin gefa til kynna,“ sagði Diogo Jota eftir öruggan 5-1 sigur Liverpool á West Ham United í enska deildarbikar karla í knattspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×