Enski boltinn

Telur sig geta fyllt skarð Rodri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Matheus Nunes og Rico Lewis fagna marki þess fyrrnefnda í sigri Manchester City á Watford í enska deildabikarnum.
Matheus Nunes og Rico Lewis fagna marki þess fyrrnefnda í sigri Manchester City á Watford í enska deildabikarnum. getty/Carl Recine

Ekki vantar sjálfstraustið í Matheus Nunes, leikmann Manchester City. Hann telur að hann geti fyllt skarð Rodris sem verður frá keppni næstu mánuðina vegna alvarlegra meiðsla.

Rodri meiddist í toppslag City og Arsenal á sunnudaginn og nú er komið í ljós að hann sleit krossband í hné. Spánverjinn gæti því hafa spilað sinn síðasta leik á tímabilinu.

Blóðtakan er mikil fyrir City enda Rodri talinn í hópi bestu leikmanna heims og hann þykir líklegur til að vinna Gullboltann 2024.

Nunes viðurkenndi að Rodri skildi eftir sig stórt skarð en hann telur að hann geti hjálpað til við að fylla það.

„Við þurfum að fylla skarðið því þetta er mikill missir. Hver sá sem er á vellinum þarf að spila vel,“ sagði Nunes sem kom til City frá Wolves í fyrra.

„Hjá Wolves spilaði ég meira sem kantmaður og í fyrra spilaði ég meira sem tía en þegar ég var hjá Sporting spilaði ég alltaf sem annar af tveimur miðjumönnum svo ég er öllu vanur. Ég reyni að hjálpa liðinu í hvert einasta skipti sem stjórinn setur mig inn á en ég veit að hinir strákarnir eru líka tilbúnir því liðið er svo gott.“

Nunes benti á að City hefði orðið Englandsmeistari á síðasta tímabili þrátt fyrir að Kevin De Bruyne og Erling Haaland hefðu verið frá vegna meiðsla.

Nunes, sem er 26 ára portúgalskur landsliðsmaður, lék 28 leiki með City í öllum keppnum á síðasta tímabili. Hann skoraði seinna mark City í 2-1 sigrinum á Watford í enska deildabikarnum í fyrradag. Það var fyrsta mark hans fyrir félagið.

Næsti leikur City er gegn Newcastle United í hádeginu á laugardaginn. Strákarnir hans Peps Guardiola eru með eins stigs forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×