Enski boltinn

Kroos ætlaði að fara til United en svo var Moyes rekinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Toni Kroos varð fimm sinnum Evrópumeistari með Real Madrid.
Toni Kroos varð fimm sinnum Evrópumeistari með Real Madrid. getty/Justin Setterfield

Litlu mátti muna að Toni Kroos gengi í raðir Manchester United frá Bayern München sumarið 2014. En vegna stjóraskipta hjá United varð ekkert af þeim vistaskiptum og hann fór þess í stað til Real Madrid þar sem hann lék þar til ferlinum lauk.

Kroos var gríðarlega eftirsóttur eftir að Bayern München vann þrennuna tímabilið 2012-13. United vildi meðal annars fá hann og David Moyes, þáverandi stjóri liðsins, heimsótti hann í München.

„Það var mjög indælt að hafa hann og eiginkonu hans hjá okkur,“ sagði Kroos sem ákvað svo að fara til United. En svo var Moyes rekinn, skömmu áður en tímabilinu 2013-14 lauk. Louis van Gaal tók við starfi hans um sumarið.

„Svo réðu þeir Van Gaal og við ákváðum í sameiningu að hætta við þetta,“ sagði Kroos sem samdi í kjölfarið við Real Madrid.

Þar lék Þjóðverjinn í áratug og vann allt sem hægt var að vinna, meðal annars Meistaradeild Evrópu fimm sinnum. Kroos lagði skóna á hilluna eftir að Þýskaland féll úr leik á EM í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×