Enski boltinn

Ein­stakt af­rek Brentford dugði skammt en Everton vann loksins

Sindri Sverrisson skrifar
Dwight McNeil tryggði Everton langþráðan sigur með tveimur mörkum.
Dwight McNeil tryggði Everton langþráðan sigur með tveimur mörkum. Getty/Jan Kruger

Landsliðsmarkvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson fylgdist áfram með af varamannabekknum þegar Brentford mætti West Ham og setti glænýtt met í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Bryan Mbeumo skoraði á fyrstu mínútu leiksins annan leikinn í röð, og þetta var þriðji leikurinn í röð þar sem Brentford skorar á fyrstu mínútu. Það er einsdæmi í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Markið dugði þó aðeins til eins stigs því Tomas Soucek jafnaði metin á 54. mínútu.

Fulham heldur áfram sinni bestu byrjun í deildinni í háa herrans tíð, eða frá árinu 2003, með því að vinna Nottingham Forest á útivelli, 1-0.

Raul Jimenez skoraði eina markið, úr vítaspyrnu í seinni háfleik, og hefur þar með skorað fimmtíu mörk í úrvalsdeildinni.

Fyrsti sigur Everton

Everton vann sinn fyrsta sigur í deildinni á þessari leiktíð þegar liðið lagði Crystal Palace að velli, 2-1. Marc Guehi náði að koma Palace yfir á tíundu mínútu en Dwight McNeil skoraði bæði mörk Everton, snemma í seinni hálfleik, og tryggði heimamönnum langþráðan sigur.

Þetta var í fyrsta sinn frá 1. október 2022 sem að Everton tekst að vinna deildarleik eftir að hafa lent undir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×