Erlent

Frelsis­flokkurinn stærstur í Austur­ríki

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Herbert Kickl tók við sem formaður Frelsisflokksins árið 2021.
Herbert Kickl tók við sem formaður Frelsisflokksins árið 2021. AP

Kosið var til þings í Austurríki í dag og benda fyrstu útgönguspár til þess að Frelsisflokkurinn verði stærstur flokka með 29,1 prósent atkvæða.

Frelsisflokkurinn (FPÖ) er þjóðernissinnaður hægri flokkur sem talar fyrir harðri innflytjendastefnu og hefur uppi efasemdir um áframhaldandi stuðning við Úkraínu gegn Rússum. Innflytjendamál, Úkraína, og verðbólgan voru fyrirferðamikil atriði í kosningabaráttunni.

Fyrstu útgönguspár gefa til kynna að flokkurinn fái 29,1 prósent atkvæða, og verði stærsti flokkurinn á þingi. Næststærstur er ÖVP, hefðbundnari íhaldsflokkur í líkingu við kristilega demókrata, með 26,3 prósent atkvæða.

Karl Nehammer, formaður næststærsta flokksins ÖVP, hefur sagt að ómögulegt væri að taka þátt í ríkisstjórn með Frelsisflokknum. Það væri „ómögulegt að vera í ríkisstjórn með fólki sem er hrifið af samsæriskenningum.“

Það er því ekki ljóst hvort góður árangur Frelsisflokksins geti skilað þeim í ríkisstjórn.

Þriðji stærsti flokkurinn samkvæmt spánni eru Sósíaldemókratar með 21 prósent, svo frjálslyndi flokkurinn NEOS með 9 prósent atkvæða og loks Græningjar með 8,3 prósent atkvæða.

Kommúnistaflokkur Austurríkis fær 2,4 prósent atkvæða, og Bjórflokkurinn 2 prósent.

Dreifing atkvæða samkvæmt fyrstu útgönguspá.Skjáskot/Austurríska ríkissjónvarpið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×