Enski boltinn

Leik­menn láta í sér heyra: „Við erum í hættu“

Aron Guðmundsson skrifar
Timber í baráttunni með Arsenal gegn Manchester City á dögunum
Timber í baráttunni með Arsenal gegn Manchester City á dögunum Vísir/Getty

Jurren Timber, leikmaður enska úrvalsdeildarfélagsins, segir leikmönnum stafa hættu af leikjaálagi. Fjöldi leikja sé of mikill og segir hann leikmenn ræða mikið um þetta sín á milli.

Umræðan um mikið leikjaálag og hættuna sem að því fylgir skýtur reglulega upp kollinum og nú síðast í kjölfar alvarlegra meiðsla sem Rodri, miðjumaður Englandsmeistara Manchester City varð fyrir á dögunum gegn Arsenal. 

Rodri, sem sleit krossband, sagði leikmenn nálægt því ákveða verkfallsaðgerðir til þess að mótmæla þessu mikla leikjaálagi og tók Timber undir áhyggjur kollega síns á blaðamannafundi Arsenal í dag fyrir leik morgundagsins gegn PSG í Meistaradeild Evrópu. 

Timber sjálfur missti úr stóran hluta af síðasta tímabili eftir að hafa slitið krossband.

„Þetta er mikið rætt innan búningsklefans þessa dagana,“ sagði Timber á blaðamannafundi fyrr í dag. „Ekki bara hjá Manchester City. Heldur einnig hjá Liverpool og innan okkar búningsklefa.

Ég spilaði lítið sem ekkert á síðasta tímabili og er því að njóta þess til hins ítrasta að geta spilað núna. Þið heyrið mig ekki kvarta en ég sýni því sem þeir eru að halda á lofti fullkominn skilning.“

Rodri verður frá út yfirstandandi tímabil vegna sinna meiðsla. Aðspurður hvort leikmenn væru í meiri áhættu vegna fjölda þeirra leikja sem þeir eru að spila þurfti Timber ekki að hugsa sig tvisvar um.

„Klárlega. Ég tel í fullri hreinskilni sagt að við séum í hættu út af þessu. Við spiluðum gegn Manchester City fyrir rúmri viku síðan og þeir spiluðu næsta leik einhverjum tveimur dögum síðar. Það er of mikið af því góða.“

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir leikmennina sjálfa þurfa að standa í stafni í sinni baráttu en kollegi hans hjá Arsenal, Mikel Arteta, segir að hlusta þurfi á sjónarmið leikmanna.

„Leikmenn eru að láta í sér heyra núna. Hlustið á okkur og leyfið rödd okkar að heyrast. Það lítur ekki út fyrir að minna verði um leiki hjá okkur á næstunni,“ sagði Timber.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×