Enski boltinn

Liver­pool ekki meistara­efni: „Eru langt á eftir City og Arsenal“

Aron Guðmundsson skrifar
Gary Neville hefur ekki trú á því að Liverpool muni standa uppi sem Englandsmeistari að yfirstandandi tímabili loknu.
Gary Neville hefur ekki trú á því að Liverpool muni standa uppi sem Englandsmeistari að yfirstandandi tímabili loknu. Vísir/Samsett mynd

Sparkspekingurinn Gary Neville, fyrrverandi leikmaður Manchester United, telur að Liverpool geti ekki barist við Manchester City og Arsenal um Englandsmeistaratitilinn. Lærisveinar Arne Slot séu langt á eftir þeim liðum.

Liverpool hefur farið afar vel af stað undir stjórn Arne Slot sem tók við stjórnartaumunum á Anfield fyrir yfirstandandi tímabil eftir brotthvarf Þjóðverjans Jurgen Klopp.

Strákarnir úr rauða hluta Bítlaborgarinnar eru sem stendur á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með eins stigs forskot á Manchester City og Arsenal. 

Neville heldur úti hlaðvarpi um ensku úrvalsdeildina á rás Sky Sports og í nýjasta þætti sínum segist hann ekki sannfærður um að Liverpool geti sótt hærra en þriðja sætið sem Jurgen Klopp skilaði liðinu í á sínu síðasta tímabili. 

Arne Slot hefur farið vel af stað sem knattspyrnustjóri Liverpool Vísir/Getty

„Mér leið ekki eins og ég væri að horfa á verðandi meistaralið á móti Wolves um helgina ef ég á að vera hreinskilinn. Þeir eru langt á eftir Arsenal og Manchester City en ég held að þær fréttir komi ekki sem eitthvað sjokk,“ sagði Gary Neville í nýjasta hlaðvarpsþætti sínum.

Neville býst við því að titilbaráttan verði á milli ríkjandi Englandsmeistara Manchester City og Arsenal. 

„Titilbaráttan í fyrra var góð. Ég tel að hún verði það einnig á þessu tímabili. City veit af Arsenal fyrir aftan sig, Skytturnar eru farnar að pikka í öxlina á þeim.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×