Enski boltinn

Leik­maður City hand­tekinn fyrir að stela síma

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Matheus Nunes kom til Manchester City frá Wolves í fyrra.
Matheus Nunes kom til Manchester City frá Wolves í fyrra. getty/MI News

Matheus Nunes, leikmaður Englandsmeistara Manchester City, var handtekinn í Madríd þann 8. september vegna gruns um að hann hafi stolið síma.

Nunes á að hafa tekið síma af 58 ára manni sem reyndi að taka mynd af honum inni á klósetti á skemmtistað í Madríd og neitað að skila honum.

Lögreglan var kölluð á staðinn og hún færði Nunes út af staðnum í járnum. Farið var með hann á lögreglustöð þar sem hann var yfirheyrður. Honum var sleppt nokkrum klukkutímum síðar þegar lögmaður hans blandaði sér í málið.

Samkvæmt El Mundo á Nunes von á ákæru og gæti þurft að mæta fyrir rétt vegna símaþjófnaðarins.

Nunes lék allan leikinn fyrir City sem vann 0-4 sigur á Slovan Bratislava í Meistaradeild Evrópu í gær.

City keypti Nunes frá Wolves fyrir 53 milljónir punda. Hann lék 28 leiki með City í öllum keppnum á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×