Enski boltinn

Sjáðu fá­rán­leg mis­tök mark­varðar Leeds

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Illan Meslier horfir á eftir boltanum í markið.
Illan Meslier horfir á eftir boltanum í markið. getty/MI News

Illan Meslier, markvörður Leeds United, hefur eflaust ekki sofið mikið í nótt eftir að hafa gert skelfileg mistök í leik gegn Sunderland í ensku B-deildinni.

Leeds var 1-2 yfir þegar sjö mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma á Leikvangi ljóssins í gær. Heimamenn í Sunderland gerðu örvæntingarfull tilraun til að jafna og Alan Browne sendi boltann inn á vítateig gestanna. Hann bjóst eflaust ekki við að nokkrum sekúndum seinna myndi hann fagna marki.

Boltinn skoppaði einu sinni fyrir framan Meslier og fór svo á ótrúlegan hátt milli fóta hans og í markið. Ótrúleg mistök hjá Frakkanum en Sunderland-menn fögnuðu dramatísku jöfnunarmarki. Mistökin hjá Meslier má sjá hér fyrir neðan.

Daniel Farke, knattspyrnustjóri Leeds, sagði að Meslier hefði verið niðurbrotinn eftir leikinn. 

„Í svona stöðu þarftu ekki að tala við Illan. Hann er sorgmæddasti maðurinn í búningsklefanum. Hann er nánast grátandi,“ sagði Farke og bætti við að hann hefði aldrei upplifað neitt þessu slíkt á þrjátíu ára ferli í fótbolta.

Ef Leeds hefði unnið hefði liðið jafnað Sunderland að stigum á toppi deildarinnar. Þrjú stig skilja liðin enn að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×