Frá þessu greinir The Times nú undir kvöld. Samkomulag er í höfn og búist við opinberri yfirlýsingu á næstunni. Tuchel opnaði á það í júlí að taka við enska landsliðinu og nú er það frágengið.
Lee Carsley hefur stýrt enska landsliðinu í síðustu fjórum leikjum þess, eða síðan Gareth Southgate hætti í sumar. Litlar líkur voru hins vegar taldar á því að Carsley yrði ráðinn landsliðsþjálfari Englands til frambúðar.
Tuchel hefur verið án starfs síðan hann hætti hjá Bayern München í maí.
Enska knattspyrnusambandið hafði áhuga á að fá Pep Guardiola, knattspyrnustjóra Manchester City, sem næsta landsliðsþjálfara en svo virðist sem hann hafi ekki verið klár í slaginn.
Tuchel verður þriðji útlendingurinn til að stýra enska landsliðinu, á eftir Sven-Göran Eriksson og Fabio Capello.
Tuchel, sem er 51 árs, hefur ekki þjálfað landslið áður. Á ferli sínum hefur hann stýrt Mainz 05, Borussia Dortmund og Bayern í heimalandinu, Paris Saint-Germain í Frakklandi og Chelsea á Englandi. Hann vann deildartitla með PSG og Bayern og stýrði Chelsea til sigurs í Meistaradeild Evrópu 2021.
Uppfært klukkan 17:50, eftir frétt The Times um að samkomulag væri í höfn.