Enski boltinn

Wenger segir að hann hefði ekki getað gert það sama og Tuchel

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arsene Wenger ræðir við Thomas Tuchel á verðlaunahátíð FIFA fyrir árið 2021.
Arsene Wenger ræðir við Thomas Tuchel á verðlaunahátíð FIFA fyrir árið 2021. getty/Harold Cunningham

Arsene Wenger, sem stýrði Arsenal í 22 ár, segir að hann hefði átt erfitt með að gera það sem Thomas Tuchel gerði; taka við landsliði annarrar þjóðar.

Hinn þýski Tuchel var ráðinn þjálfari enska landsliðsins í síðustu viku. Skiptar skoðanir eru á ráðningunni en sumir hafa sett sig upp á móti því að útlendingur þjálfi enska landsliðið.

Wenger er þeirrar skoðunar að þjálfarar landsliða eigi að koma frá sama landi og leikmennirnir.

„Ég er á því að þjálfarinn eigi að koma frá landinu. Af hverju ætti leikmaðurinn að koma frá landinu en ekki þjálfarinn?“ sagði Wenger á beIN Sports.

Hann segir að hann hefði varla getað þjálfað annað landslið en það franska.

„Ég hef ekki skipt um skoðun. Núna hafa þeir ráðið Tuchel. Hann er frábær þjálfari og fullkominn kostur en hann er ekki enskur. En þetta má svo þetta er allt í lagi. Mér finnst bara, til að gera þetta eins einfalt og mögulegt er, að ef ég er þjálfari Englands og spila gegn Frakklandi geti ég ekki sungið franska þjóðsönginn,“ sagði Wenger.

Lee Carsley, sem er Íri, hefur stýrt enska landsliðinu síðan Gareth Southgate hætti eftir Evrópumótið. Carsley klárar Þjóðadeildina með enska liðinu og Tuchel tekur svo við á nýja árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×