Enski boltinn

Palmer líkt við Zola: Þekki hann bara úr FIFA leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cole Palmer fagnar hér sigurmarki sínu fyrir Chelsea í gær. Hann tryggði liði sínu þá sigur á Newcastle United.
Cole Palmer fagnar hér sigurmarki sínu fyrir Chelsea í gær. Hann tryggði liði sínu þá sigur á Newcastle United. Getty/Joe Prior

Cole Palmer tryggði Chelsea sigur á Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í gær og þetta var ekki í fyrsta sinn sem strákurinn gerir gæfumuninn í leikjum liðsins.

Eftir leikinn var Palmer líkt við Chelsea goðsögnina Gianfranco Zola sem er vinsælasti leikmaður félagsins fyrr eða síðar.

Þeir sem fylgdust með Chelaea fyrir og eftir aldarmótin þekkja vel hetjudáðir Zola sem lék með Chelsea frá 1996 til 2003.

Þegar Ítalinn yfirgaf félagið sumarið 2003 þá var umræddur Cole Palmer aðeins eins árs. Palmer þekkti nafnið hans en þó frá öðru en að sjá hann spila.

„Ég veit að hann var goðsögn í FIFA-leiknum þannig að hann hlýtur að hafa verið góður,“ sagði Palmer þegar hann var spurður út í samanburðinn.

„Ef ég segi alveg eins og er þá sá ég hann aldrei spila. Allir segja að hann hafi verið frábær leikmaður, þannig að ég segi bara takk fyrir,“ sagði Palmer.

Palmer var að skora sitt sjöunda mark í níu leikjum á leiktíðinni. Hann fékk boltann á miðjunni, lék upp á vítateignum og lagði hann laglega í markið.

Hann var með 22 mörk og 11 stoðsendingar á sínu fyrsta tímabilið með Chelsea og hefur fylgt því eftir með frábærri byrjun á þessari leiktíð. Auk sjö marka í vetur þá er hann einnig með fimm stoðsendingar. Chelsea hefur skorað 19 mörk og Palmer hefur komið með beinum hætti að 63 prósent þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×