Enski boltinn

Ten Hag vildi fá Welbeck til United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Danny Welbeck skorar gegn Manchester United.
Danny Welbeck skorar gegn Manchester United. getty/Gareth Fuller

Fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, Erik ten Hag, vildi fá Danny Welbeck aftur til liðsins í sumar og fyrrasumar.

Welbeck hefur verið sjóðheitur í byrjun tímabils og skorað sex mörk fyrir Brighton í ensku úrvalsdeildinni.

The Athletic greinir frá því að Ten Hag hafi bæði viljað fá Welbeck sumarið 2023 og fyrir þetta tímabil. Welbeck er uppalinn hjá United og lék 142 leiki fyrir félagið áður en hann fór til Arsenal 2014.

United gerði Welbeck þó aldrei samningstilboð, meðal annars vegna óvissu með framtíð Ten Hags hjá félaginu í sumar. Þá var nýtt skipulag hjá United ekki enn tilbúið og Dan Ashworth ekki tekinn við sem yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu.

Welbeck skrifaði á endanum undir nýjan tveggja ára samning við Brighton í sumar. Hann skoraði í 2-1 sigri Brighton á United í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Ten Hag var rekinn sem knattspyrnustjóri United á mánudaginn. Rúben Amorim, stjóri Sporting, þykir líklegastur til að taka við af honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×