Enski boltinn

Lítur út fyrir að United þurfi að bíða eftir Amorim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruben Amorim fær örugglega fullt af spurningum um Manchester United á blaðamannafundi í dag en Sporting spilar deildarleik annað kvöld.
Ruben Amorim fær örugglega fullt af spurningum um Manchester United á blaðamannafundi í dag en Sporting spilar deildarleik annað kvöld. Getty/Carlos Rodrigues

Manchester United stefndi á það að Ruben Amorim myndi stýra liðinu á móti Chelsea í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Það er hins vegar mjög ólíklegt úr þessu.

Simon Stone hjá breska ríkisútvarpinu fjallar um málið og segir langlíklegast úr þessu að Amorim taki ekki við United fyrr en eftir landsleikjahléið í nóvember.

Sporting er búið að gefa það út að þeir hafi náð samkomulagi við United og stjórnarmaðurinn Sir Dave Brailsford sagði stuðningsmönnum á Old Trafford í gær að samningurinn væri í höfn.

Það gætu því komið fréttir um samkomulag í dag en bæði Amorim og Ruud van Nistelrooy, tímabundinn stjóri United, ræða þá við fjölmiðla. Þetta er líka spurning um hvort að Amorim fái að taka aðstoðarmenn sína með sér til Englands.

Það er eitt fyrir Sporting að missa stjóra sinn á miðju tímabili en annað að missa þrjá til viðbótar úr þjálfarateyminu.

Sporting á deildarleik á móti Estrela annað kvöld og svo Meistaradeildarleik á móti Manchester City í næstu viku. Liðið mætir svo Braga í lokaleiknum fyrir landsleikjahlé.

United mætir Chelsea á sunnudaginn, spilar síðan við gríska félagið í Evrópudeildinni á fimmtudaginn í næstu viku og síðasti leikurinn fyrir landsleikjaglugga er síðan á móti Leicester.

Ruud van Nistelrooy stýrði Manchester United til 5-2 sigurs á Leicester í enska deildabikarnum í gærkvöldi og mun líklegast stýra liðinu líka á móti Chelsea.

@BBC Sport



Fleiri fréttir

Sjá meira


×