Enski boltinn

Van Nistelrooy til í öll störf og vill vera á­fram hjá Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruud van Nistelrooy var mjög líflegur á bekknum hjá Manchester United í fyrsta leik og fagnaði mörkunum vel.
Ruud van Nistelrooy var mjög líflegur á bekknum hjá Manchester United í fyrsta leik og fagnaði mörkunum vel. Getty/James Gill

Ruud van Nistelrooy verður knattspyrnustjóri Manchester United í næstu leikjum liðsins en hann mun stýra liðinu þar til að Ruben Amorim tekur við eftir landsleikjahlé um miðjan nóvember.

Van Nistelrooy stýrði United til 5-2 sigurs á Leicester City í enska deildabikarnum í sínum fyrsta leik. Liðið skoraði aldrei fimm mörk í einum leik á móti úrvalsdeildarfélagi undir stjórn forvera hans Erik ten Hag en gerði það í fyrsta leiknum hjá honum.

Sporting CP sleppir Amorim ekki strax og því fær Van Nistelrooy nokkra leiki í viðbót. Hann vill ólmur vera áfram hjá Manchester United sama í hvaða hlutverki hann verður.

Van Nistelrooy gerði góða hluti sem leikmaður United á sínum tíma en kom til félagsins aftur í sumar til að verða aðstoðarmaður Ten Hag. Hann var spurður út í framtíð sína eftir sigurinn á Leicester og um það hvort hann vildi vera áfram.

„Auðvitað. Ég kom hingað til að hjálpa félaginu. Núna er ég í þessu hlutverki og er að reyna að hjálpa til á meðan þörf er fyrir mig,“ sagði Ruud van Nistelrooy við Sky Sports.

„Í framtíðinni þá er ég klár í að aðstoða félagið í hvaða hlutverki sem það verður. Ég vil hjálpa félaginu að byggja upp til framtíðar og þess vegna er ég hér,“ sagði Van Nistelrooy.

„Það var sorgardagur þegar ég þurfti að taka við liðinu þegar Erik [ten Hag] var látinn fara og blendnar tilfinningar í gangi. Það var hann sem bað mig um að koma hingað aftur. Í fyrsta samtalinu okkur þá fann ég ástríðuna og væntumþykju hans fyrir félaginu. Þess vegna var leiðinlegt að sjá hann fara,“ sagði Van Nistelrooy .

Næst á dagskrá er að stýra liðinu á móti Chelsea í ensku úrvalsdeildinni um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×