Enski boltinn

Slot henti bæði Mourinho og Ancelotti úr efsta sætinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arne Slot hefur haft ástæðu til að brosa síðan að hann settist í knattspyrnustjórastólinn hjá Liverpool.
Arne Slot hefur haft ástæðu til að brosa síðan að hann settist í knattspyrnustjórastólinn hjá Liverpool. Getty/Naomi Baker

Arne Slot hefur átt algjöra draumabyrjun sem knattspyrnustjóri Liverpool og virðist nánast setja nýtt met í hverjum leik.

Liverpool vann 4-0 sigur á Bayer Leverkusen í Meistaradeildinni í vikunni og er núna efst í bæði ensku úrvalsdeildinni og í Meistaradeildinni.

Liverpool hefur unnið fjórtán af fyrstu sextán leikjum sínum undir stjórn Slot í öllum keppnum.

Einu leikirnir sem unnust ekki voru í 1-0 tapi á móti Nottingham Forest á Anfield og 2-2 jafntefli á móti Arsenal. Liðið hefur unnið fjóra fyrstu leiki sína í Meistaradeildinni og það með markatölunni 10-1.

Slot er ekki aðeins að setja Liverpool met heldur einnig met þegar öll úrvalsdeildarfélögin eru tekin með.

Með því að vinna fjórtán af fyrstu sextán leikjum sínum þá henti hann Jose Mourinho og Carlo Ancelotti úr efsta sætinu yfir bestu byrjun knattspyrnustjóra í ensku úrvalsdeildinni í öllum keppnum.

Mourinho kom inn í deildina 2004 og vann þá þrettán af fyrstu sextán leikjum sínum með Chelsea. Liðið gerði þá jafntefli við Aston Villa (0-0), Tottenham (0-0) og tapaði 1-0 fyrir Manchester City.

Ancelotti mætti til Chelsea árið 2009 og vann þá líka þrettán af fyrstu sextán leikjum sínum. Einu leikirnir sem ekki unnust voru í 3-1 tapi á móti Wigan, 2-1 tapi á móti Aston Villa og 2-2 jafntefli á móti Atlético Madrid í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×