Gagnrýni

Ást­kona njósnarans skildi eftir sig sjóð­heit bréf

Jónas Sen skrifar
Emilíana Torrini og hljómsveit fluttu lög af nýútkominni plötu í bland við eldri lög. Jakko Eino Halevi hitaði upp. Eldborg í Hörpu 9. nóvember.
Emilíana Torrini og hljómsveit fluttu lög af nýútkominni plötu í bland við eldri lög. Jakko Eino Halevi hitaði upp. Eldborg í Hörpu 9. nóvember. JS

Tónleikar Emilíönu Torrini í Eldborg í Hörpu á laugardagskvöldið byrjuðu ekki vel. Upphitunin var í höndunum á finnska raftónlistarmanninum Jakko Eino Halevi; afhverju veit ég ekki. Kannski var það vegna þess að tónleikarnir voru svokallaðir „IA 24 partner event“, þ.e. tengdir Iceland Airwaves. Allir vita að það eru ekki alltaf jólin þar á bæ.

Atriðið var afskaplega klént. Tónlistin var klisjukennd, söngurinn flatur og óspennandi, og svo óskýr að ekki var nokkur leið að skilja um hvað var verið að syngja. Dularfullar hreyfimyndir á veggnum fyrir ofan sviðið voru aðallega hnífapör í skrykkjóttum dansi. Sem betur fer var atriðið ekki langt, rúmar tuttugu mínútur - og svo var gert tuttugu mínútna hlé! Ég heyrði hneykslað fólk allt í kringum mig fnæsa hátt.

Perri fyrir hinu sorglega

En biðin var þess virði. Emiliana Torrini sagði á undan einu laginu sínu að hún væri „perri fyrir sorglegum lögum“. Að fíla sorgleg lög er þó engin perversjón. Sjálfur Rakhmanínoff hélt því einu sinni fram að tónlistin og ljóðlistin væru systur og sorgin væri móðir þeirra. Vissulega voru mörg lögin á dagskránni í molltóntegund (sem er dekkri en dúrtóntegundin), en þau voru alltaf seiðandi og hittu mann í hjartastað.

Nýja platan

Meginuppistaðan á tónleikunum var nýútkomin plata Emilíönu, Miss Flower. Hún heitir eftir móður vinkonu Emilíönu, en þegar hún lést uppgötvaðist svört taska með ástarbréfum. Þær vinkonur fóru í gegnum bréfabunkann – og það var sko krassandi, sjóðheit lesning. Geraldine Flower var afskaplega frjálslynd, hún giftist aldrei en átti marga ástmenn. Stærsta sambandið var við háttsettan njósnara í liði Ronalds Reagan, sem fékk fyrir vikið veigamikinn sess í dagskránni. En allir lagatextarnir voru innblásnir af bréfum flestra þessara elskhuga og laglínurnar voru ætíð lokkandi.

Frábær hljómsveit

Andrúmsloftið sem frábær hljómsveitin skapaði í kringum sönginn var auk þess magnað. Engu að síður var merking ljóðanna gefin í skyn fremur en að henni væri slengt framan í mann. Í lágstemmdri tónlistinni var þó kröftug undiralda, sem gerði að verkum að maður hlustaði dáleiddur.

Í það heila var hljómsveitarleikurinn fíngerður, blæbrigðaríkur og kom jafnvel stundum á óvart. Ýmsar einleiksstrófur voru innblásnar. Minnistætt er eitt lagið sem þar sem píanóleikarinn spilaði ísmeygilegan krómatískan tónstiga (þ.e. allar nótur áttundarinnar, líka þessar svörtu). Hann framkallaði sjarmerandi hughrif.

Sjaldheyrður galdur

Tæknilega séð var hljómsveitin ávallt samtaka, þétt og einbeitt. Rúsínan í pylsuendanum var svo söngur Emilíönu, sem var einstaklega fallegur, tær og bjartur, en þrunginn tilfinningum. Útkoman var sérstæður - og sjaldheyrður - galdur.

Blanda af ljóðrænni andakt og litríkum, en fíngerðum hljóðfæraleik var heillandi. Mér liggur við að segja að Emilíana Torrini sé Chopin íslenskrar popptónlistar. Svo ljúf var tónlistin hennar og grípandi.

Niðurstaða: Mögnuð kvöldstund sem þó byrjaði ekki vel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.