Enski boltinn

Ödegaard strax aftur heim

Sindri Sverrisson skrifar
Martin Ödegaard splæsir í nokkrar fimmur á leiðinni inn á Stamford Bridge fyrir leikinn við Chelsea á sunnudaginn.
Martin Ödegaard splæsir í nokkrar fimmur á leiðinni inn á Stamford Bridge fyrir leikinn við Chelsea á sunnudaginn. Getty/Ryan Pierse

Fyrirliðinn Martin Ödegaard verður ekki með norska landsliðinu í leikjunum við Slóveníu og Kasakstan, í Þjóðadeildinni í fótbolta á næstu dögum.

Ödegaard er nýkominn af stað með Arsenal eftir að hafa meiðst í ökkla í landsleik fyrir tveimur mánuðum.

Hann kom inn á sem varamaður í Meistaradeildarleik gegn Inter í síðustu viku en náði svo að spila allan leikinn gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag.

Í gær var hann svo kallaður inn í norska landsliðshópinn - eitthvað sem stuðningsmenn Arsenal hafa eflaust sett spurningamerki við.

En nú er orðið ljóst að Ödegaard fer strax aftur til Lundúna og vinnur í að jafna sig enn betur af meiðslunum.

„Þetta hafa verið flókin ökklameiðsli. Eftir sárafáar æfingar með liðinu síðustu níu vikur þá er eðlilegt að líkaminn sé ekki orðinn hundrað prósent,“ sagði Ola Sand, læknir norska landsliðsins.

„Eftir ítarlegar rannsóknir og samtöl erum við sammála um að Martin verði ekki klár í slaginn til að spila leikina við Slóveníu og Kasakstan. Í samráði við hann höfum við komist að þeirri niðurstöðu að það sé betra að hann fari heim til London og haldi áfram endurhæfingunni þar,“ sagði Sand.

Landsliðsþjálfarinn Ståle Solbakken segir að heilsa fyrirliðans sé í forgangi.

„Við vissum að það væri hætta á því að Martin yrði ekki með. Hann þráir það að geta spilað leikina en við getum ekki tekið áhættu með heilsu hans. En ég er viss um að strákarnir eru tilbúnir að gefa allt sitt í leikina og að menn stígi upp í hans fjarveru,“ sagði Solbakken.

Noregur mætir Slóveníu á útivelli á fimmtudaginn og svo Kasakstan á heimavelli þremur dögum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×