Enski boltinn

Landsliðskonurnar eiga von á barni saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sam Kerr og Kristie Mewis hafa verið í sambúð frá 2021. Hér eru þær eftir sigur Chelsea í enska bikarúrslitaleiknum árið 2023.
Sam Kerr og Kristie Mewis hafa verið í sambúð frá 2021. Hér eru þær eftir sigur Chelsea í enska bikarúrslitaleiknum árið 2023. Getty/ John Walton

Landsliðskonurnar Sam Kerr og Kristie Mewis tilkynntu í dag að þær eiga von á barni saman.

Kerr er landsliðskona Ástralíu en Mewis hefur verið í bandaríska landsliðinu.

Það er Mewis sem er ófrísk en hún er liðsfélagi Dagnýjar Brynjarsdóttur hjá West Ham.

Kerr og Mewis sögðu frá tíðindunum á samfélagsmiðlum sínum. Héldu saman á mynd úr ómsjánni og bentu á bumbu Mewis. Undir stóð: „Mewis-Kerr barn á leiðinni árið 2025.“

Þær hafa verið í samaband síðan 2021 og trúlofuðu sig á síðasta ári.

Kerr hefur ekkert spilað á árinu 2024 eftir að hafa slitið krossband í æfingarleik í janúar. Hún framlengdi samning sinn við Chelsea í júní til ársins 2026.

Kerr hefur skorað 99 mörk í 128 leikjum fyrir Chelsea og 69 mörk fyrir ástralska landsliðið.

Mewis varð bandarískur meistari með NY/NJ Gotham FC í fyrra og gekk til liðs við West Ham í janúar. Hún hefur síðan verið afar óheppin með meiðsli og veikindi sem þýðir að hún hefur aðeins spilað þrjá leiki fyrir West Ham.

Eini leikur Mewis á þessu tímabili var þegar hún kom inn á sem varamaður á móti Manchester United í fyrsta leik tímabilsins. Hún hefur ekki spilað síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×