Enski boltinn

Guardiola samdi til ársins 2027

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola hefur gert Manchester City að enskum meisturum fjögur ár í röð og sex sinnum alls.
Pep Guardiola hefur gert Manchester City að enskum meisturum fjögur ár í röð og sex sinnum alls. Getty/Michael Regan

Pep Guardiola skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við Manchester City á dögunum en ekki undir eins árs samning eins og fyrst kom fram. City staðfesti nýja samninginn í kvöld.

Hinn 53 ára gamli Guardiola verður því knattspyrnustjóri City til ársins 2027.

Hann tók við City árið 2016 eftir að hafa komið þangað frá Bayern München. Sumarið 2026 verður hann búin að vera knattspyrnustjóri enska félagsins í heilan áratug.

@ManCity)

„Manchester City skiptir mig svo miklu máli. Við höfum upplifað svo margar stórkostlegar stundir saman. Það er sérstakur andi í þessum fótboltaklúbbi. Þess vegna er ég ánægður að vera áfram í tvö tímabili í viðbót,“ sagði Pep Guardiola í viðtali á heimasíðu Manchester City.

„Það hefur alltaf verið heiður, ánægja og forréttindi að vera hér. Ég hef sagt þetta oft áður en hér hef ég allt sem knattspyrnustjóri getur óskað sér. Ég kann svo mikið að meta það. Vonandi getum við bætt við fleiri titlum við þá sem við höfum þegar. Ég mun einbeita mér að því,“ sagði Guardiola.

Guardiola hefur unnið fimmtán stóra titla með félaginu þar af ensku úrvalsdeildina sex sinnum. Á þessu tímabili er hann að reyna að verða fyrsti stjórinn í sögu enska fótboltans til að vinna fimm meistaratitla í röð.

City hefur reyndar tapað fjórum leikjum í röð í öllum keppnum og er nú fimm stigum á eftir toppliði Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×