Englandsmeistar Manchester City töpuðu sínum þriðja deildarleik í röð í dag þegar liðið steinlá á heimavelli gegn Tottenham 0-4.
Fyrir leik fögnuðu stuðningsmenn City með Rodri sem sýndi Gullbolta verðlaun sín en Rodri er með slitið krossband og verður fjarri góðu gamni um langa hríð.

James Maddison kom gestunum í 0-2 með mörkum á 13. og 20. mínútu. Varnarleikur heimamanna var einu orði sagt skelfilegur í báðum mörkunum. Pedro Porro kom Tottenham svo í 0-3 í upphaf síðari hálfleiks.
Eftir það nálguðust gestirnir frá Lundúnum leikinn mjög skynsamlega, vörðust vel og gáfu fá hættuleg færi á sér. Niðurlæging meistaranna var svo fullkomnuð í uppbótartíma þegar varamaðurinn Brennan Johnson skoraði fjórða mark leiksins og sitt fimmta mark í deildinni.
City hefu nú tapað síðustu fimm leikjum sínum, einum í Meistaradeildinni, einum í bikar á móti Tottenham og þremur í deildinni, en þetta er í fyrsta sinn á stjóraferli Pep Guardiola sem það gerist.