Enski boltinn

Dele Alli ekki í leikformi og farinn frá Everton

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Dele Alli hefur ekki spilað síðan í febrúar 2023.
Dele Alli hefur ekki spilað síðan í febrúar 2023. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Enski knattspyrnumaðurinn Dele Alli hefur yfirgefið úrvalsdeildarfélagið að Everton að fullu. Samningur hans við félagið rann út í sumar en Alli hefur verið leyft að æfa með liðinu síðan þá. Hann segir hlutina ekki hafa farið eins vel og hann vildi.

Dele Alli samdi við Everton árið 2022 eftir sjö ára dvöl hjá Tottenham, hvar hann skaust upp á stjörnuhimininn en hrapaði jafn hratt til jarðar. Hann fór síðan á lán til Besiktas en hefur ekki spilað keppnisleik síðan í febrúar 2023.

Í fyrra opnaði hann sig einnig um erfiðleika sem hafa elt hann frá æsku, misnotkun sem hann varð fyrir sem barn og aðstæðurnar sem leiddu til þess að hann ánetjaðist svefnlyfjum.

Honum tókst ekki að koma sér í nógu gott stand hjá Everton og segir tímabært að hefja nýjan kafla á nýju ári 2025. Í kveðju sinni á Instagram þakkar hann félaginu fyrir allt sem það gaf honum. Þetta hafi verið erfiður tími og hlutirnir hafi ekki gengið eins vel og hann vildi.

Hvað tekur við hjá Dele Alli er enn óljóst. The Athletic greindi frá því á mánudag að Cesc Fabregas, þjálfari ítalska úrvalsdeildarliðsins Como, hafi boðið honum á æfingar en eingöngu „til þess að koma sér í leikform“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×