Enski boltinn

Amorim segir leik­menn sína hrædda

Sindri Sverrisson skrifar
Rúben Amorim hefur átt afar krefjandi byrjun sem knattspyrnustjóri Manchester United.
Rúben Amorim hefur átt afar krefjandi byrjun sem knattspyrnustjóri Manchester United. Getty/Ash Donelon

Gengi Manchester United hefur verið afleitt í vetur og ekki skánað með komu portúgalska stjórans Rúbens Amorim. Tapi United gegn Liverpool í dag yrði það fjórða tap liðsins í röð í ensku úrvalsdeildinni, sem ekki hefur gerst í 46 ár.

United hefur tapað síðustu þremur deildarleikjum, gegn Bournemouth, Wolves og Newcastle, án þess að skora eitt einasta mark. Ef liðið tapar í dag og skorar ekki mark, fjórða leikinn í röð, yrði það í fyrsta sinn síðan í apríl 1909, eða fyrir 116 árum.

„Þið sjáið það á andlitinu mínu og getið borið það saman við það þegar ég kom hingað,“ sagði Amorim þegar hann ræddi um pressuna sem er á honum og United-liðinu, sem situr í 14. sæti.

„Auðvitað er mikil pressa. Fyrir mér snýst þetta um stoltið og frammistöðuna. Það er allt erfiðara þegar við stöndum okkur ekki vel,“ sagði Amorim samkvæmt grein BBC.

United hefur ekki unnið á Anfield síðan í janúar 2016 þegar Wayne Rooney skoraði sigurmarkið. United skoraði síðast mark á Anfield í desember 2018, og hefur því mistekist það í fimm síðustu heimsóknum.

Amorim, sem tók við United í nóvember, vill sjá leikmenn sína óhræddari á vellinum:

„Þeir eru óöruggir, stundum hræddir á vellinum,“ sagði Amorim um leikmennina en hann hefur kallað eftir því að fleiri leiðtogar stígi fram.

„Við þurfum á því að halda að leiðtogarnir axli ábyrgð og hjálpi hinum strákunum, og ég er ábyrgastur fyrir því að frammistaðan batni. Maður sér að leikmenn eru að reyna, stundum af of mikilli örvæntingu, of hræddir við að spila fótbolta því þetta er erfið staða og við viljum hjálpa leikmönnunum að verða betri,“ sagði Amorim.

Leikur Liverpool og Manchester United hefst klukkan 16:30 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×