Enski boltinn

Segir fótboltaguðina á móti Luton

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rob Edwards og strákunum hans í Luton Town virðast allar bjargir bannaðar þessa dagana.
Rob Edwards og strákunum hans í Luton Town virðast allar bjargir bannaðar þessa dagana. getty/Zac Goodwin

Knattspyrnustjóri Luton Town, Rob Edwards, sagði að fótboltaguðirnir væru á móti sínu liði eftir að það tapaði fyrir QPR, 2-1, í ensku B-deildinni í gær.

Luton féll úr ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og hefur gengið illa í B-deildinni í vetur. Liðið hefur tapað fjórum leikjum í röð og tíu útileikjum í röð og er aðeins tveimur stigum fyrir ofan fallsæti.

„Við fengum nokkur góð tækifæri sjálfir en þetta er enn einn leikurinn þar sem við segjum það sama,“ sagði Edwards eftir tapið fyrir QPR.

„Þeir skoruðu heppnismark og þá horfirðu bara til himins. Við virðumst alltaf fá á okkur endalaus högg á útivelli. Hlutirnir hafa fallið okkur í mót. Það er eins og fótboltaguðirnir séu á móti okkur. Leikmennirnir gefa allt sem þeir eiga en þetta er úrslitabransi.“

Næsti leikur Luton er í erfiðari kantinum, eða gegn Nottingham Forest, liðinu í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, í 3. umferð ensku bikarkeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×