Enski boltinn

Elon Musk sagður vilja kaupa Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það gengur vel hjá Liverpool þessa dagana og ríkasti maður heims, Elon Musk, er nú sagðir hafa áhuga að eignast félagið.
Það gengur vel hjá Liverpool þessa dagana og ríkasti maður heims, Elon Musk, er nú sagðir hafa áhuga að eignast félagið. Getty/Tom Williams/Liverpool FC

Faðir auðjöfursins Elon Musk segir son sinn hafa á áhuga á því að eignast enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool.

Errol Musk talaði opinskátt um Liverpool áhuga sonar síns í nýju viðtali.

„Já, hann myndi vilja kaupa Liverpool. Augljóslega. Allir vilja eignast Liverpool og ég líka,“ sagði Errol Musk í viðtali við Times Radio. 

Útvarpsmaðurinn spurði Musk hreint út vegna þess að bandariskir slúðurfjölmiðlar höfðu verið duglegir að fjalla um áhuga Musk á Liverpool.

„Amma hans fæddist í Liverpool og við eigum ættingja í borginni. Við vorum svo lukkuleg að þekkja vel til Bítlanna af því að fólk úr fjölskyldunni ólst upp með þeim,“ sagði Musk. Express segir frá.

„Ég get samt ekki staðfest það að hann ætli að kaupa félagið því þá munu þeir bara hækka verðið. Hann hefur samt áhuga en það þýðir samt ekki að hann ætli að kaupa,“ sagði Musk eldri.

Elon Musk hefur verið afar áberandi síðan hann keypti Twitter og breytti samfélagsmiðlunum í X. Þá var hann lykilmaður þegar Donald Trump endurheimti forsetaembættið í Bandaríkjunum.

Hann á líka fyrirtækin Tesla og SpaceX en nú horfir hann út fyrir Bandaríkin til að auka áhrif sín á alþjóðlegum vettvangi.

Musk hefur vissulega efni á félaginu enda ríkasti maður heims. Hvort bandarískir eigendur Liverpool vilji selja er allt önnur saga. Þá mun verðið alltaf vera úrslitavaldur þear kemur að mögulegum kaupum.

Liverpool er með sex stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og er einnig á toppi Meistaradeildarinnar. Þetta gæti því orðið magnað tímabil fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×