Enski boltinn

Rooney bað Coleen á bensín­stöð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Coleen og Wayne Rooney hafa gengið í gegnum súrt og sætt.
Coleen og Wayne Rooney hafa gengið í gegnum súrt og sætt. getty/JMEnternational

Wayne Rooney valdi heldur óvenjulegan stað til að biðja eiginkonu sinnar, Coleen. Hann bað hana nefnilega að giftast sér á bensínstöð.

Coleen var gestur í hlaðvarpinu Stick to Football þar sem hún sagði meðal annars frá því þegar Rooney bað hennar. Hann ætlaði upphaflega að biðja hennar á veitingastað en endaði á að gera það á bensínstöð.

„Það er rétt. Við vorum bara sautján ára og vorum að fara að fá okkur kínverskan mat. Ég man ekki hvort við vorum að rífast eða hvað en ég sagði að ég vildi ekki fara í mat,“ sagði Coleen.

„Við stoppuðum á bensínstöð. Hann fór inn, kom aftur út og sagði: Ég ætlaði að biðja þín þegar við vorum á veitingastaðnum. Núna er ég glöð að hann spurði mig ekki þar.“

Rooney-hjónin kynntust í Liverpool þegar þau voru aðeins tólf ára en byrjuðu að hittast þegar þau voru sextán. Ári seinna bað Rooney Coleen um að giftast sér. Brúðkaupið fór svo fram á Ítalíu 2008. Rooney-hjónin eiga fjóra drengi saman.

Rooney hætti sem knattspyrnustjóri enska B-deildarliðsins Plymouth Argyle á gamlársdag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×