Enski boltinn

Diallo verð­launaður með nýjum samningi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Amad Diallo fagnar marki sínu gegn Liverpool.
Amad Diallo fagnar marki sínu gegn Liverpool. getty/Carl Recine

Amad Diallo, sem hefur spilað vel fyrir Manchester United undanfarnar vikur, hefur skrifað undir nýjan samning við félagið.

Nýi samningurinn er til fimm og hálfs árs og gildir fram í júní 2030. Gamli samningur Fílbeinsstrendingsins við United átti að renna út í sumar en í honum var þó möguleiki á eins árs framlengingu.

„Ég er mjög stoltur að hafa skrifað undir þennan nýja samning. Ég hef nú þegar átt nokkur frábær augnablik með félaginu en það er bara byrjunin. Ég er mjög metnaðarfullur og vil skrifa söguna með Manchester United,“ sagði Diallo við undirritun nýja samningsins.

Diallo hefur komið sterkur inn í lið United eftir að Ruben Amorim tók við því. Hann skoraði meðal annars sigurmarkið gegn Manchester City í síðasta mánuði og jöfnunarmarkið gegn Liverpool um síðustu helgi.

United keypti Diallo frá Atalanta 2021. Hann var lánaður til Rangers seinni hluta tímabilsins 2021-22 og svo til Sunderland tímabilið á eftir.

Alls hefur Diallo leikið fimmtíu leiki fyrir United og skorað níu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×