Enski boltinn

Conte vill fá Garnacho í staðinn fyrir Kvaratskhelia

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alejandro Garnacho hefur verið orðaður við brottför frá Manchester United.
Alejandro Garnacho hefur verið orðaður við brottför frá Manchester United. getty/James Gill

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Napoli, vill fá Alejandro Garnacho, leikmann Manchester United, í staðinn fyrir Khvicha Kvaratskhelia sem er væntanlega á förum frá ítalska félaginu.

Um helgina greindi Conte frá því að Kvaratskhelia hefði óskað eftir því að fara frá Napoli í þessum mánuði. Líklegast þykir að Georgíumaðurinn fari til Paris Saint-Germain.

Samkvæmt ítölskum fjölmiðlum er Conte þegar byrjaður að undirbúa brotthvarf Kvaratskhelias og vill fá Garnacho til að fylla skarðið sem hann skilur eftir sig.

Garncho var í byrjunarliði United í leiknum gegn Arsenal í bikarkeppninni í gær en hafði þar áður verið á bekknum í fimm leiki í röð.

Kvaratskhelia sló í gegn með Napoli tímabilið 2022-23 þegar liðið varð ítalskur meistari með yfirburðum. Illa gekk á síðasta tímabili en Napoli hefur náð vopnum sínum á ný eftir að Conte tók við liðinu.

Napoli er með fjögurra stiga forskot á toppi ítölsku úrvalsdeildarinnar en liðin í næstu tveimur sætum, Inter og Atalanta, eiga leiki til góða. Kvaratskhelia hefur skorað fimm mörk og lagt upp þrjú í sautján deildarleikjum í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×