Enski boltinn

Van Dijk: Þetta var bikarúrslitaleikur fyrir Everton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Oliver dómari segir hér Virgil van Dijk og Alisson Becker að halda sér fjarri honum eftir að James Tarkowski skoraði jöfnunarmark Everton.
Michael Oliver dómari segir hér Virgil van Dijk og Alisson Becker að halda sér fjarri honum eftir að James Tarkowski skoraði jöfnunarmark Everton. Getty/Alex Pantling

Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, var að sjálfsögðu mjög svekktur með að Liverpool liðið missti frá sér sigurinn í uppbótatíma í 2-2 jafntefli á móti nágrönnum sínum í Everton.

„Þetta var alltaf að fara að vera ákafur og ástríðufullur leikur,“ sagði Van Dijk.

„Það er mjög svekkjandi að tapa tveimur stigum á síðustu sekúndum leiksins eða jafnvel þegar það var komið fram yfir uppbótatíma. Við tökum stigið og höldum bara áfram,“ sagði Van Dijk.

„Dómarinn átti stóran þátt í því hvernig leikurinn spilaðist með því að vera að dæma allar þessar aukaspyrnur,“ sagði Van Dijk.

„Þetta var bikarúrslitaleikur fyrir Everton og þeir reyndu allt sem þeir gátu til að vinna,“ sagði Van Dijk.

Þrjú rauð spjöld fóru á loft í lokin eitt á Everton en tvö á Liverpool. Arne Slot fékk rautt spjald fyrir að mótmæla en Curtis Jones fyrir að slást við Doucoure.

„Doucoure vildi ögra stuðningsmönnum okkar og Curtis taldi að það væri ekki hið rétta í stöðunni. Mér fannst dómarinn ekki hafa stjórn á þessum leik. Ég sagði hinum það. Svona er þetta bara og við verðum bara að taka stigið og halda áfram,“ sagði Van Dijk.

„Við erum búnir að koma okkur í góða stöðu. Við vitum samt að það eru margir erfiðir leikir fram undan. Allir þurfa þá að spila sinn besta leik. Það eru allir vonsviknir með endinn á þessum leik en við einbeitum okkur að næstu verkefnum á morgun,“ sagði Van Dijk.

„Allir leikir verða erfiðir til loka tímabilsins og svo sjáum við til hvort að við náum þessu. Við erum í góðri stöðu og verðum bara að halda baráttunni áfram“ sagði Van Dijk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×