Crystal Palace er komið áfram í átta liða úrslit ensku bikarkeppninnar eftir 3-1 sigur á Milwall í dag. Markvörður gestanna var rekinn af velli snemma leiks fyrir fáránlegt brot.
Leikurinn var aðeins nokkurra mínútna gamall þegar Liam Roberts, markvörður Millwall, braut gróflega á Jean-Philippe Matea, framherja Palace. Roberts var á undan Mateta í boltann en sparkaði í andlit Frakkans sem lá óvígur eftir. Brotið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Roberts fékk rautt spjald og í stað hans kom Lukas Jensen í mark Milwall. Jensen þessi lék sjö leiki með Kórdrengjum í Lengjudeildinni sumarið 2021.
Mateta þurfti að fara af velli vegna meiðslanna sem hann varð fyrir eftir tæklingu Roberts.
Palace náði forystunni á 33. mínútu þegar Japhet Tanganga skoraði sjálfsmark. Daniel Munoz jók muninn svo í 2-0 sjö mínútum síðar. Þegar þrettán mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik minnkaði Wes Harding muninn fyrir Milwall, 2-1.
Eddie Nketiah kom inn á fyrir Mateta eftir stundarfjórðung og hann gulltryggði sigur Palace þegar hann skoraði þriðja mark liðsins níu mínútum fyrir leikslok. Lokatölur 3-1, Palace í vil. Mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Öruggt hjá Stefáni Teiti og félögum
Preston er einnig komið í átta liða úrslit bikarkeppninnar eftir 3-0 sigur á Burnley á Deepdale. Stefán Teitur Þórðarson lék allan leikinn fyrir Preston.
Robbie Brady, Milutin Osmajic og Will Keane skoruðu mörk Preston í leiknum í dag.