Enski boltinn

Capello: Guardiola er hroka­gikkur sem hefur skaðað fót­boltann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabio Capello er ekki hrifinn af Pep Guardiola og segir mikil áhrif hans vera slæm fyrir fótboltann.
Fabio Capello er ekki hrifinn af Pep Guardiola og segir mikil áhrif hans vera slæm fyrir fótboltann. AFP/FADEL SENNA/Oli SCARFF

Eitt er víst. Spænski knattspyrnustjórinn Pep Guardiola á sér marga aðdáendur en Ítalinn Fabio Capello er ekki í þeirra hópi.

Capello hraunaði yfir Guardiola í nýju viðtali við spænska blaðið El Mundo. Hann var ekki að tala undir rós þegar kom að áliti hans á að einum allra besta knattspyrnustjóra heimsins í dag.

„Veistu hvað ég þoli ekki hjá Guardiola? Það er hrokinn hans. Meistaradeildin sem hann vann með City er eina skiptið þar sem hann reyndi ekki að gera eitthvað fyndið eða furðulegt í lykilleikjum liðsins,“ sagði Fabio Capello við El Mundo en Guardiola á það oft til að koma mörgum á óvörum með uppstillingu sinni í mikilvægum leikjum.

Fyrirsögnin á viðtalinu við Fabio Capello.El Mundo

„Hann reyndi að breyta hlutum og finna hluti upp svo hann gæti sagt: Það eru ekki leikmennirnir sem vinna leikina, það er ég sem vinn leikina,“ sagði Capello.

„Þessi hroki hans hefur kostað hann nokkra titla í Meistaradeildinni,“ sagði Capello.

„Þó að það sé ekki lengur hans sök þá hefur hann skaðað fótboltann mikið. Ástæðan fyrir því að undanfarin tíu ár hafa allir stjórar reynt að herma eftir honum,“ sagði Capello.

Fabio Capello átti sjálfur flottan fótboltaferil, bæði með félagsliði en einnig með enska landsliðinu frá 2007 til 2012. Hann þjálfaði einnig rússneska landsliðið en þekktastur er hann fyrir tíma sinn með AC Milan, Juventus og Real Madrid.

AC Milan varð fjórum sinnum ítalskur meistari undir hans stjórn og hann vann Meistaradeildina líka 1994. Hann gerði einnig Real Madrid tvisvar að spænskum meisturum og Roma einu sinni að ítölskum meisturum.

Titlarnir tveir sem Juventus vann undir hans stjórn, 2005 og 2006, voru teknir af félaginu vegna Calciopoli veðmálasvindlsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×