Enski boltinn

„Verður vonandi til­búinn fyrir síðustu leiki tíma­bilsins“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Erling Haaland meiddist um helgina og verður frá í fimm til sjö vikur.
Erling Haaland meiddist um helgina og verður frá í fimm til sjö vikur. Catherine Ivill - AMA/Getty Images

Erling Haaland verður frá vegna meiðsla í fimm til sjö vikur. Þjálfarinn Pep Guardiola vonar að hann verði tilbúinn til átaka fyrir síðustu leiki tímabilsins á Englandi og fyrir HM félagsliða sem fer fram í sumar.

Haaland meiddist á ökkla og var tekinn af velli eftir rúmlega klukkutíma leik í 2-1 sigri City gegn Bournemouth í átta liða úrslitum FA bikarsins um helgina. Haaland skoraði jöfnunarmark City, eftir að hafa klúðrað vítaspyrnu. Hann sást síðan yfirgefa Etihad haltrandi á hækjum.

„Læknarnir segja mér að hann verði frá í fimm til sjö vikur. Þannig að hann verður vonandi tilbúinn fyrir síðustu leiki tímabilsins og fyrir HM félagsliða“ sagði Guardiola.

FA bikarinn og HM félagsliða í sumar eru einu möguleikar City á titli eftir að liðið féll úr leik í Meistaradeildinni og deildabikarnum og dróst aftur úr titilbaráttunni í úrvalsdeildinni.

Ef miðað er við fimm vikna meiðsli mun Haaland snúa aftur í deildarleik gegn Southampton þann 10. maí og vera orðinn klár fyrir úrslitaleik FA bikarsins þann 17. maí. Að því gefnu að City vinni Forest í undanúrslitum og komist þangað.

Ef miðað er við sjö vikna meiðsli mun það standa mjög tæpt, úrslitaleikurinn fer fram akkúrat sjö vikum eftir að Haaland varð fyrir meiðslunum um helgina.

Haaland ætti þó að vera orðinn leikhæfur fyrir lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar þann 25. maí. HM félagsliða hefst svo þann 14. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×